Góð vika afstaðin sem endaði á hjóladegi :)

Þessa viku höfum við verið að vinna með stafinn Bb. Börnin á deildinni eru mjög dugleg að finna heima hjá sér hluti sem byrja á þeim staf. Stafaborðið er að fyllast. Getum þó enn troðið á það, engin fjöldatakmörkun komin á ! Allavegana ennþá  🙂  Frábært að sjá hvað foreldrar eru einnig virkir og hafa greinilega margir gaman af þessu.

Það virðist vera að börnin séu flest komin í rútínu dagsins eða vikunnar. Minntu mig meira að segja á í söngstund í gær, þegar borðstjórar voru búnir að bjóða öllum að gjöra svo vel, hvort að ætti ekki að syngja Allur matur. Yfirleitt byrja þau núna á því sjálf um leið búið er að bjóða til matar. Í söngstund erum við með nokkur lög sem eru mest æfð. Svo sem: Fann ég á fjalli, 10 indíánar í skógi, stafalagið þá vikuna, a og b spott og spé og svo afi minn og amma mín. Allir taka þátt eftir því sem þeir kunna og virðast allir vera að vanda sig að syngja vel, þannig að oft myndast mikil ró og vandvirkni í söngstund, fallegur söngur. Syngjum einnig lög sem beinast að einum og einum. Það finnst þeim mjög fyndið og gaman en getur stundum verið erfitt þegar athyglin beinist að þeim.

Frábær hjóladagur var í dag. Allir svo jákvæðir og duglegir. Fórum í Sunnutröð, lokuðum götunni og fórum að hjóla þar. Það heppnaðist mjög vel. Eikin fór bara þangað og því nokkuð pláss sem allir fengu. Stundum pínulítið erfitt að hjóla mót vindi, en þá var bara að vera hugrakkur og ekki gefast upp. Gekk mjög vel 🙂

Takk fyrir góða viku og njótið samverunnar um helgina 🙂

Elín Hulda og Heleen