Eikin – Föstudagsfréttir

Eikin 10. desember

Ennþá vinnum við með stöðvavinnu og föndrum alls kyns jólaskraut. Það gengur mjög vel að vera með fjórar mismunandi stöðvar og svo eftir fjóra hópastarfsdaga eru allir búnir að gera fjóra mismunandi hluti. Börnin bæði sjá hvað hinir hafa gert og vita hvað þau eru búin með og því gengur hópastarfið mjög vel, enda duglegir og áhugasamir nemendur hér á ferð !

Á fimmtudögum, þegar krakkar úr 7.bekk koma að lesa, þá gengur mjög vel. Frábært samstarf og mjög gaman að fá þau hingað til að lesa, skemmtileg tilbreyting.
Á þriðjudaginn fór allur leikskólinn upp í Aldísarlund. Okkar deild fór á undan upp eftir, þar sem við skreyttum með luktunum sem við bjuggum til og einnig með friðarkertum. Séra Hannes kom með gítarinn sinn og við sungum saman og svo sagði hann okkur sögur inn á milli. Við áttum þarna saman góða stund í fallegu veðri.

Í söngstundunum syngjum við mikið af jólalögum. Börnin muna greinilega mjög mikið af lögunum frá því í fyrra, þannig að þetta gengur vel og höfum við notalega stund saman. Oft setjum við kertaljós í miðju hringsins sem við höfum stundum kallað vinaljós. Einnig lesum við á hverjum degi upp úr skemmtilegu jóladagatali og börnin hlusta hugfangin á.