Fréttir frá Hrafnagilsskóla leikskóladeild

Við hér í Hrafnagilsskóla leikskóladeild erum að reyna að venja okkur við að við heitum ekki lengur Krummakot, og gerðist það strax og við sameinuðumst Hrafnagilsskóla grunnskóladeild. Þess vegna vefst okkur stundum tunga um tönn þegar við svörum í símann og getur þetta tekið einhvern tíma.

Þorrablót leikskólans verður á föstudaginn og gerum við okkur þá glaðan dag að þjóðlegum sið. Við syngjum saman, allir hafa búið sér til kórónur og svo fáum við að smakka þorramat í hádeginu.

Börnunum er nú enn að fjölga hjá okkur og á Öspina kemur í byrjun febrúar Kristófer Alex Lucaci. Einnig eigum við von á fleiri börnum í mars. Þessu fylgja auðvitað fleiri starfsmenn og erum við í leikskóladeild að skoða þau mál.

Skólasamstarfið byrjar 24. janúar með stuttri heimsókn, síðan byrjar það 7. febrúar og verður á mánudögum í 8 vikur.

Við erum núna að byrja að vinna með dyggðina sköpunargleði, og tengist hún öllu okkar starfi.