Frá stjórnanda leikskóladeildar

Við viljum þakka fyrir frábæra mætingu foreldra á foreldrakynninguna síðastliðið mánudagskvöld. Það skiptir máli að heimili og leikskóli vinni saman og því meira sem hægt er að vera samstíga og í samvinnu því betra er það fyrir hag barnanna.

Á kynningunni var farið yfir helstu áherslur í leikskólastarfinu bæði almennt og einnig sérstakar áherslur í vetur. Fyrst var stjórnandi leikskóladeildar með almenna kynningu og síðan voru deildarstjórar með kynningar inni á hverri deild.

Í almennri kynningu um leikskólastarfið var farið yfir það hvernig fundinn er út starfsmannafjöldi á leikskóla út frá barngildum. Starfsmenn á yngri deildum hafa umsjón með færri börnum heldur en starfsmenn á eldri deildum. Starfsmannafjöldi er því reiknaður út frá fjölda barna á leikskóla og dvalartímum þeirra. Við leikskóladeild Hrafnagilsskóla hefur mikill sveigjanleiki verið gefinn gagnvart dvalartímum og þá sérstaklega gagnvart þeim tímum sem foreldrar sækja börnin á. Við viljum draga úr þessum sveigjanleika til að einfalda alla útreikninga frá mánuði til mánaðar. Við mælumst til þess að börnin séu ekki með fleiri en tvær tímasetningar þegar komið er með þau og þau sótt yfir vikuna. Eins þurfa börnin annað hvort að vera skráð í morgunmat og/ eða síðdegishressingu, alla daga eða ekki. Dvalartími barns er reiknaður í hálfum og heilum tímum dag hvern og þarf því meðaltal yfir vikuna að standa á heilum eða hálfum klukkutíma. Eins viljum við biðja fólk um að gera samninga um dvalartíma til hálfsárs í senn nema ef einhverjar óvæntar breytingar verða á fjölskylduháttum eða atvinnu sem við tökum auðvitað tillit til.

Þeir foreldrar sem hafa nú þegar gengið frá tímum fyrir veturinn geta alveg verið rólegir með sitt samkomulag við stjórnanda. Þessum breytingum munum við koma á smátt og smátt og við tökum okkur árið í að breyta þessu.