Jólasprell

Það hefur margt skemmtilegt verið í gangi í vikunni varðandi jólin og jólaundirbúning. Á deildunum var verið að leggja síðustu hönd á jólagjafir til foreldra. Einnig var föndrað jólaskraut sem sett var á fína jólatréð okkar sem stendur í matsalnum. Á mánudaginn fórum við í Aldísarlund og sungum jólalög með Hannesi Blandon presti og nemendum í 1. bekk. Það var virkilega hátíðlegt og skemmtilegt. Við kveiktum lítið bál og höfðum logandi ljós í kertaluktum. Á miðvikudaginn var farið yfir í Jólagarð þar sem jólasveinn tók á móti okkur. Þar var dansað í kringum jólatré úti í garði og allir fengu pakka með sér heim. Nemendur í 6. bekk voru til aðstoðar og þau stóðu sig vel. Í dag voru síðan litlu jólin haldin hátíðleg í leikskólanum. Dansað var í kringum jólatréð og jólasveinar komu í heimsókn. Þeir gáfu öllum börnunum gjöf til að taka með sér heim. Í hádeginum borðuðum við síðan jólamat, hangikjöt og meðlæti og allir fengu ís á eftir. Hér má sjá myndir sem teknar voru í vikunni.