Uppskeruhátíð á Öspinni

Í morgun var uppskeruhátíð í tilefni af lokum söguaðferðarverkefnis á Öspinni sem fjallaði um vatnið. Nemendur og kennarar hafa unnið með vatnið á margvíslegan hátt síðast liðnar sex vikur og nærumhverfi leikskólans notað í ríkum mæli. Kveikjan að verkefninu var vatnsverndarsvæði Grísarárlinda en í gönguferð upp með Reykánni komu börnin auga á sérkennilegt hús sem þau vildu fræðast betur um. Þannig leiddi eitt af öðru, börnin sömdu bréf til foreldra sinna til að komast að því hvaða hús þetta gæti verið, gerðar voru margvíslegar tilraunir með vatn, bátar smíðaðir og þeir látnir sigla niður Reykána, ljóð samin um vatnið, leikið með vatn og myndvarpa og tónlistarleikhús æft af kappi. Markmið með söguaðferðarvinnunni er að samþætta öll námsvið aðalnámskrár í eitt þemaverkefni og má segja að það hafi tekist með glæsibrag. Foreldrar fá kærar þakkir fyrir samveruna í morgun. Hér má sjá nokkrar myndir frá hátíðinni. Myndasýning sem sýnir feril söguaðferðarverkefnisins verður sett á heimasíðuna undir tengilinn Innra starf.