Jólakveðja frá Krummakoti

Með þessum litla pistli um Litlu jólin okkar sendum við ykkur foreldrum og gullmolunum ykkar hugheilar óskir um gleðilega jólahátíð og farsælt og heillaríkt nýtt ár, 2017.
Innilegar þakkir fyrir ánægjulegt samstarf á árinu sem er að líða.


Loksins rann upp föstudagurinn 16. desember sem var einn af hápunktum ársins og eftir honum beðið. Litlu jólin og jólaballið voru haldin þennan dag.
Litlu jólin hófust á venjubundinn hátt þegar börnin tíndust eitt af öðru í skólann. Kveðjustundin var þó öðruvísi enda fól hún í sér fyrirheit um að flestir foreldranna kæmu von bráðar aftur til þess að njóta samvistanna við barnið í leikskólanum og á ballinu í Laugarborg. Það væri freistandi að halda því fram að börnin hafi beðið hátíðarhaldanna bæði stillt og prúð, eins og sagt var í gamla daga, en því fór fjarri. Eftirvæntingin og tilhlökkunin hljóp í alla anga og höfuðið líka. Það var erfitt að bíða. Þegar leið að hádegi fór ilmur að berast um húsið. Hangikjötið var komið í hús með kartöflum, rauðkáli og grænum baunum. Jafningurinn toppaði svo meðlætið. Þegar klukkan var loksins orðin tvö voru bæði börn og flestir foreldrar mættir á jólaballið í Laugarborg. Þar beið þeirra fagurlega skreytt jólatré og hress og kátur forsöngvari á sviðinu. Leikskólinn býr svo vel að hafa vel söngfæra kennara og það var Imma sem leiddi sönginn að þessu sinni með undirleik Reynis Schiöth sem brást vel við beiðni um að spila undir á píanóið, eins og stundum áður. Foreldrar og börn sameinuðust í söng og göngu í kringum jólatréð. Í fyllingu tímans komu félagarnir Hurðaskellir og Kertasníkir og hleyptu endurnýjuðum krafti í gönguna. Að dansinum loknum fóru allir, að jólasveinunum meðtöldum, í Krummakot. Þar buðu börnin upp á kökur sem þau bökuðu fyrir tilefnið, kakó og mandarínur. Kræsingunum voru gerð góð skil. Jólasveinarnir tveir afhentu börnunum pakka og í lok dags fóru allir heim og a.m.k allflestir saddir og sáttir við góðan dag. Höf. Ingibjörg Hallgrímsdóttir