Krummakot er staðsett í Eyjafjarðarsveit sem er um 1000 manna sveitarfélag. Í sveitarfélaginu eru bændabýli og þéttbýliskjarnar í bland, en Eyjafjarðarsveit er þó fyrst og fremst bændasamfélag og mótast menning samfélagsins af því. Leik- og grunnskólinn eru samreknir undir stjórn eins skólastjóra. Aðstoðarskólastjóri starfar við leikskólann og sér um daglegan rekstur og faglega forystu. Eyjafjarðarsveit er með samning við Akureyrarbæ um sérfræðiþjónustu og hafa stjórnendur leikskólans aðgang að þeirri þjónustu sem Fjölskyldudeild Akureyrar býður upp á.

Haustið 1987 tók til starfa dagheimili sem rekið var af Hrafnagilshreppi í eitt skólaár síðan bættist Öngulsstaðahreppur við sem rekstraraðili. Til að byrja með var dagheimilið starfrækt í 9 mánuði, frá septemberbyrjun til maíloka. Fyrsta veturinn var dagheimilið með aðsetur í íbúð í Hrafnagilsskóla, síðan var dagheimilið tvo vetur staðsett að Botni, sem er sumardvalarstaður fyrir fatlaða einstaklinga. Haustið 1990 fluttist starfsemin aftur í íbúðina í Hrafnagilsskóla. Þegar Hrafnagils-, Öngulsstaða- og Saurbæjarhreppur sameinuðust árið 2001 í eitt sveitarfélag, Eyjafjarðarsveit, hlaut dagheimilið nafnið Leikskóli Eyjafjarðarsveitar, síðar leikskólinn Krummakot.

Frá árinu 1992 hefur Krummakot verið rekið sem heilsárs leikskóli, en lokað hefur verið í fjórar til fimm vikur yfir sumartímann. 15. september er afmælisdagur Krummakots, þann dag 1998 var starfsemin flutt í núverandi húsnæði sem hafði verið nýtt fyrir 1.- 4. bekk grunnskólans áður.

Í upphafi voru 15 börn í Krummakoti en þeim fjölgaði mjög fljótlega í 18 og síðan í 27 börn í mismunandi vistunarrýmum. Í nýja Krummakoti fjölgaði börnunum strax í 40 börn, í 27 heilsdags vistunarrýmum og síðar í 43 börn í 27 heilsdags vistunarrýmum. Yfir daginn komu því í leikskólann 43 börn á mismunandi tímum. Á vorönn 2011 voru 52 nemendur við leikskólann. Í nóvember 2014 eru þeir 61 talsins.

Skólaárin 1998-2000 var húsnæðið samnýtt með 1. og 2. bekk grunnskólans og skólaárið 2000-2001 með 2. og 3. bekk grunnskólans. Sumarið 2001 var lokið við að byggja við grunnskólann og leikskólinn fékk allt húsnæðið til afnota. Í desember 2006 bættist enn við húsnæði Krummakots og nú eru vistunarrými leikskólans fyrir 72 börn. Árið 2008 ákvað sveitarstjórn að samreka leik- og grunnskóla og eftir það breyttist nafn skólans úr Krummakoti í leikskóladeild Hrafnagilsskóla. Nafninu var síðan breytt aftur í Krummakot.

Leikskólinn er aldursskiptur þriggja deilda leikskóli, ætlaður nemendum frá 18 mánaða aldri.  Leikskólinn opnar kl. 7:30 á morgnana og lokar kl. 16:30 síðdegis. Leikskólatími nemenda er frá sex til níu klukkustundum á dag, langflestir í átta til átta og hálfan klukkutíma á dag.

Í leikskólanum er matsalur fyrir tvo elstu árgangana en  hinar deildirnar borða inni í sinni heimastofu. Maturinn er fenginn frá mötuneyti Hrafnagilsskóla.