Lífsleikni í leikskóla 
Í Krummakoti hefur verið unnið með lífsleikni með nemendum frá árinu 2009. Unnið er markvisst með kennsluefnið Lífsleikni í leikskóla sem gefið var út í lok september 2006 og er afrakstur þriggja ára þróunarverkefnis leikskólanna Krógabóls, Sunnubóls og Síðusels á Akureyri. Verkefnið hófs árið 2001 0g lauk formlega árið 2004.
Oftast er unnið með eina dygð á hverri önn og reynt að flétta umræðu um dygðina inn í allt daglegt starf leikskólans.

Innihald kennsluefnisins er sem hér segir:

36 verkefnaspjöld – með skipulögðum hópastarfstímum.
Handbók fyrir kennara.
Söngbók.
Handbrúða og tólf sögur með henni.
Geisladiskur.
Tvær loðtöflusögur.

Kennsluefnið byggist á tólf dygðum sem má skipta niður á nokkur ár.

Þær eru:

Ábyrgð, áreiðanleiki, glaðværð, hjálpsemi, hófsemi, hugrekki, kurteisi, samkennd, sköpunargleði, vinsemd, virðing og þolinmæði.
Sú dygð sem unnið er með í Krummakoti haustið 2015 er kurteisi.
Dygð sem unnið er með á haustönn 2013 er:
hugrekki1
hugrekki2

Vinna með dygðir

Áður en hafist er handa við dygðakennsluna er rétt að kynna sér vel handbókina og dygðavísana. Dygðavísar lýsa hverri dygð og gefa góðar hugmyndir að verkefnum. Einnig eru þeir skreyttir spakmælum til íhugunar. Þeir eru sendir heim til barnanna til þess að uppfræða foreldra og virkja þá í dygðakennslunni. Kennarar þurfa að ræða dygðirnar og sameinast um hugmyndir. Í hverjum mánuði eru foreldraboðorð og/ eða markmið barnanna send heim. Þau fjalla um uppeldi barna og er ætlað að hjálpa til í allri dygðakennslunni. Lífsleiknin fer inn á öll námssvið leikskólans og er unnin í myndlist, tónlist, hreyfingu, málrækt, menningu og samfélagi og náttúru og umhverfi. Börnin fá þannig fjölbreytta mynd af lífinu.

Æfingin skapar meistarann!

Rauður þráður í daglega starfinu

Árangursríkast er að láta lífsleiknina vera sem rauðan þráð í starfinu. Hverja einustu mínútu er kennarinn með hugann við dygðina í vinnu sinni með börnunum. Ef hann sér eitthvað sem getur leitt til umræðna um viðkomandi dygð grípur hann tækifærið. Ef börnin byrja að ræða um dygðina þá styður kennarinn umræðuna með þátttöku sinni. Þegar kennarinn sér dygðina í framkvæmd hjá barnahópnum hrósar hann þeim.

Skipulag vetrarstarfs í lífsleikni samkvæmt kennsluefninu
 • Umræðuhópar kennara.
 • Leshópar kennara.
 • Dygðavísar sendir heim til barnanna þegar ný dygð er tekin fyrir.
 • Foreldraboðorð/markmið barna sett aftan á mánaðardagatöl í hverjum mánuði, einnig hengd upp í fataherbergjum leikskólanna.
 • Spakmæli, bókalistar og sönglagalistar tengd dygðum hengd upp.
 • Vinastundir einu sinni í mánuði.
Handbrúður

Í kennslupakkanum er ein handbrúða sem er mús. Henni fylgja tólf sögur, ein um hverja dygð. Með handbrúðunni er gott að ná athygli barnanna.

Hugmyndafræði

Hugmyndafræðin á bak við þróunarverkefnið Lífsleikni í leikskóla er tekin frá fimm fræðimönnum.

Hugmyndafræði Loris Malaguzzi beinist að trú á möguleika einstaklingsins. Rannsóknir barna og uppgötvanir eru mikilvægar og nauðsynlegt að þeim sé sýnd virðing. Í kenningu Howards Gardner um fjölþáttagreind er talað um átta greindir sem hver einstaklingur býr yfir. Börnin fá því þjálfun á ólíkum sviðum í verkefnum sínum. Í bók Daniels Goleman, Tilfinningagreind, kemur skýrt fram að góð tilfinningagreind hjálpi til við öll mannleg samskipti og því þurfi að leggja rækt við hana allt frá fæðingu.

Mannræktarstefnan, The Council for Global Education, leitast við að gera börnin bæði góð og fróð og þaðan kemur hugmyndin um dygðakennsluna.

William Damon hefur skrifað mikið um siðferðisþroska barna og gert rannsóknir sem benda til þess að börn séu færari en haldið hefur verið í að leysa siðferðisleg vandamál. Hann styður það eindregið að siðferðiskennd barna sé örvuð allt frá frumbernsku.

Hver er sinnar gæfu smiður!

Þar sem kennsluefni í lífsleikni er mjög víðtækt, gerum við engar kröfur um að uppbygging vetrarstarfsins í lífsleiknikennslu í öðrum leikskólum verði sú sama og hér er lýst. Síst af öllu má setja alla í sama farið. Sköpunargleðin verður að fá að blómstra í þessari vinnu. Hver og einn leikskóli verður að finna út hvað honum hentar og hvernig hann vill leggja dygðirnar fyrir.

Nokkur spakmæli sem notuð eru í kennsluefninu:

 • Það er hugrekki að segja já við lífið.
 • Það er vinur sem vel í vanda reynist.
 • Dagur án hláturs er glataður dagur.
 • Hóf er best í hverjum leik.
 • Dropinn holar steininn.
 • Bros er beygja sem réttir af alla hluti.
 • Lærðu af mánanum sýndu aðeins björtu hliðarnar.