Krummadagurinn, 24. maí

Við viljum þakka foreldrum og öðrum góðum gestum kærlega fyrir komuna á vorhátíðina okkar, Krummadaginn. Það var einstaklega gaman að sjá hvað kennarar og nemendur voru búnir að verja miklum tíma í undirbúning og æfingar og hversu vel tókst til í Laugarborg á sjálfan Krummadaginn. Þetta er mikil þjálfun fyrir okkar ungu nemendur og ótal margt sem börnin læra gegnum svona ferli. Það skapar sérstaklega hátíðlega umgjörð að vera með dagskrána í Laugarborg og ekki skemmir að vera í göngufæri úr leikskólanum.

Alls voru tíu nemendur útskrifaðir með formlegum hætti úr leikskólanum og fengu þeir útskriftarskjal og birkiplöntu að gjöf. Foreldrar tóku svo við eftir dagskrána í Laugarborg og buðu upp á andlitsmálun, krítar, sápukúlur, reiptog, húllahringi og reiðtúr á leikskólalóðinni þar sem teymt var undir börnunum. Grillaðar voru pylsur og boðið upp á safa. Foreldrafélagið fær kærar þakkir fyrir sína aðkomu að hátíðinni sem var til mikillar fyrirmyndar. Hér má sjá nokkrar myndir frá deginum en fleiri eru komnar á myndasíðuna.