Eikin – Föstudagsfréttir

Eikin 10. desember

Ennþá vinnum við með stöðvavinnu og föndrum alls kyns jólaskraut. Það gengur mjög vel að vera með fjórar mismunandi stöðvar og svo eftir fjóra hópastarfsdaga eru allir búnir að gera fjóra mismunandi hluti. Börnin bæði sjá hvað hinir hafa gert og vita hvað þau eru búin með og því gengur hópastarfið mjög vel, enda duglegir og áhugasamir nemendur hér á ferð !

Á fimmtudögum, þegar krakkar úr 7.bekk koma að lesa, þá gengur mjög vel. Frábært samstarf og mjög gaman að fá þau hingað til að lesa, skemmtileg tilbreyting.
Á þriðjudaginn fór allur leikskólinn upp í Aldísarlund. Okkar deild fór á undan upp eftir, þar sem við skreyttum með luktunum sem við bjuggum til og einnig með friðarkertum. Séra Hannes kom með gítarinn sinn og við sungum saman og svo sagði hann okkur sögur inn á milli. Við áttum þarna saman góða stund í fallegu veðri.

Í söngstundunum syngjum við mikið af jólalögum. Börnin muna greinilega mjög mikið af lögunum frá því í fyrra, þannig að þetta gengur vel og höfum við notalega stund saman. Oft setjum við kertaljós í miðju hringsins sem við höfum stundum kallað vinaljós. Einnig lesum við á hverjum degi upp úr skemmtilegu jóladagatali og börnin hlusta hugfangin á.

Eikin 23.-27. nóvember

Eikin 23.-27. nóvember

Hópastarfið þessa viku er búið að vera eins og síðustu viku, stöðvavinna. Hún gengur vel og börnin eru orðin vön rútínunni og vita hvað þau gera næst eða hvað þau eiga eftir að gera. Á þriðjudag var tónlist hjá Maríu og á miðvikudag fórum við í íþróttahúsið.
Þessa viku kom inn smá prjónaáhugi hjá mörgum börnum á deildinni, þá var setið og puttaprjónað eins og á prjónaverksmiðju. Á föstudag var vasaljósadagur og virtist sem börn og starfsfólk hefðu gaman af þeirri uppákomu enda alveg frábær tími nú í desember til að leika með vasaljós.

Eikin 16. – 20. nóvember

Á mánudaginn héldum við upp á dag íslenskrar tungu. Við ræddum aðeins um daginn og um Jónas Hallgrímsson sem hafði fæðst þennan dag. Sumum fannst það nú ekkert merkilegt þar sem við þekkjum hann ekki neitt.  Eftir hádegi fórum við á hátíðina í íþróttahúsinu. Horfðum á öll skemmtiatriðin því það gekk svo vel. Þegar við komum aftur í leikskólann í kaffitíma var mikið rætt um myndina sem unglingastigið gerði um djáknann á Myrká. Þá var mest rætt um manninn sem datt í ána og beinagrindina sem var klædd í föt. Mjög skemmtileg ferð sem gekk vel.

Eikin 20. nóvember

Á þriðjudaginn fórum við í tónlist hjá Maríu og svo skoðuðum við stafinn Í í og hans hljóð. Lituðum svo mynd af stafnum. Á miðvikudag var svo rosalega fallegt veður að þá var ákveðið að fara í göngutúr í staðinn fyrir að fara í íþróttahús. Tókum með okkur mjólkurkex og kakó. Ferðin gekk í fyrstu vel og svo tók aðeins á þegar gengið var upp í Aldísarlund og þar upp stíg sem liggur suður og upp. Þar stoppuðum við og fengum okkur nesti. Gengum svo niður hjá Hrafnagili og meðfram þjóðvegi aftur í leikskólann. Ferðin gekk vel og ótrúlega fallegt, kalt en stillt veður. Þegar svona kalt er í veðri og snjór úti eru gúmmístígvél of köld þó börnin séu í ullarsokkum. Sérstaklega þau sem ekki eru fóðruð.

Á fimmtudag kom Arna Ýr úr 7.bekk og las fyrir okkur um hann Elmar. Síðan var stöðvavinna. Á einni stöð var málað á krukkur sem hengdar verða upp í Aldísarlundi einhvern dag í desember. Ætlum að hafa notalega jólastund þar. Á annarri stöð var litað, klippt og límt. Þið fáið ekki að vita hvað við gerðum á þriðju og fjórðu stöð, það er alsherjar leyndarmál J
Á föstudag, í dag, var bókadagur. Lesið var upp úr öllum bókunum, einni opnu úr hverri bók. Sungum og svo teiknuðu allir eina mynd, alveg frjálst val um myndefni. Blautur dagur og allir inni eftir hádegi eftir góða skemmtun úti í pollum, drullusvaði og fleiru J
Eigið góða helgi

Eikin 9.-13. nóvember

Eikin 9.-13. nóvember
Á mánudaginn bættist við hópinn á Eikinni. Alexander Búi byrjaði hjá okkur og við bjóðum hann velkominn. Nú eru börnin orðin tuttugu og tvö börn, 8 strákar og 14 stelpur.
Það sem við gerðum þessa vikuna var nú ýmislegt skemmtilegt. Á mánudaginn æfðum við fínhreyfingar. Allir æfðu fjórar mismunandi fínhreyfingar á 15 mínútna fresti. Einskonar stöðvavinna nema börnin voru á sínu borði í sínum hóp en kassarnir með æfingunum flökkuðu á milli borða. Það var farið eftir leiðbeiningum, sett saman kubba, þræddar perlur og fleira. Gekk mjög vel enda áhugasamir og glaðir krakkar á ferð. Á fimmtudaginn teiknuðum við sjálfsmynd.
Í dag, föstudag, er bangsadagur og komu allir með einn bangsa með sér. Það virðist ekki leiðinlegt að fá að koma með bangsann sinn með sér í leikskólann. Séra Hannes kom til okkar og við sungum saman og hlýddum á skemmtilega frásögn. Börnin sátu dolfallin og virtust hafa mjög gaman af frásögninni og tóku virkan þátt í söngnum.
Myndir fylgja með úr tónlistartíma, útiveru, bangsadegi og samverustund með Séra Hannesi.

Eikin – Föstudagsfréttir 6. nóvember

Erum búin að gera margt skemmtilegt í vikunni. Á þriðjudaginn fórum við í tónlist hjá Maríu. Eftir það héldu nokkrir nemendur úr Tónlistarskóla Eyjafjarðar tónleika fyrir allan leikskólann.  Á miðvikudaginn fórum við í íþróttahúsið og spiluðum hokkí og tennis. Í hópastarfi á fimmtudaginn gerðum við rosalega falleg málverk. Límdum fyrst tusku á tréplatta, máluðum yfir og settum svo sand út í málninguna og máluðum með því. Þetta var frjálslegt og skemmtilegt verkefni sem unnin voru af miklum listamönnum.

Í dag, föstudag, var sameiginleg söngstund á Björkinni. Allur leikskólinn kom saman og sungin voru nokkur lög. Því næst var opið á milli deilda og þá gátu börnin ráðið á hvaða deild þau færu. Sumir flökkuðu á milli deilda meðan aðrir festu sig á einum stað.

Eikin – 26.-30. október

Myndir frá Eikinni vikuna 26. – 30. október

Í þessari viku hefur verið nokkuð um forföll barna og einnig starfsfólks. Vikan hefur því nokkuð einkennst af mikilli hjálpsemi milli deilda. Allir í leikskólanum fóru út strax eftir morgunmat og voru elstu börnin lengst úti, eða eftir því sem veður og föt leyfðu. Við minnum á að við förum út tvisvar sinnum á dag og því nauðsynlegt að hafa allan útbúnað fyrir það.

Á þriðjudaginn héldum við upp á alþjóðlega bangsadaginn. Allir komu með einn bangsa í leikskólann og svo bjuggum við til bangsa. Lituðum, klipptum og límdum. Hengdum svo bangsana upp þar sem allir bangsarnir leiðast og sýna vinsemd. Á miðvikudaginn skoðuðum við stafinn H og hans hljóð. Davis féll niður þessa viku og einnig tónlist og íþróttahús. Í staðinn hefur því dagurinn verið nokkuð frjáls, en rólegur og góður.

Smellið á myndina til að skoða fleiri myndir

Skemmtileg vika hjá Eikinni

Á miðvikudag fórum við í gönguferð upp hjá Aldísarlundi, lékum okkur aðeins þar. Héldum svo áfram upp göngustíg og komum niður hjá bænum Hrafnagili og aftur í leikskólann. Skemmtileg ferð í fallegu veðri. Höfum hugsað okkur að nýta einn og einn miðvikudag í það að fara í göngutúr í stað íþróttahúss.
Á miðvikudag komu Martha og Alli til okkar frá slökkviliðsstöðinni. Þau ræddu um verkefnið sem elstu börnin eru að vinna með og fengu öll börn verkefnamöppu sem unnið verður með í næstu viku. Rætt var um hvenær hringja ætti í 112 og fór svo Alli í reykkafarabúning, skreið um gólfið og börnin fengu að skríða á eftir honum. Fórum svo út og fengum að sjá allt sem geymist í slökkviliðsbílnum. Allir fengu að fara upp í slökkviliðsbílinn og svo sungu börnin eitt lag fyrir þau. Mjög skemmtileg heimsókn 🙂

Í hópastarfi á fimmtudag fórum við á bókasafnið. Magga bókasafnsvörður tók á móti okkur og las fyrir okkur eina skemmtilega bók. Í framhaldi af því fengum við að skoða bókasafnið og skoða bækur . Fengum nokkrar bækur lánaðar sem við munum svo skil næst þegar við ætlum í bókasafnsferð.
Í ferðum okkar og heimsóknum gengur mjög vel. Gaman að fara með börnin í ferðir og gaman að fá heimsókn. Getum verið stolt af þeim 🙂

Fréttir frá Eikinni

Hér koma fréttir frá síðustu viku, að þessu sinni á pdf formi.  Nokkrar myndir með 🙂

Fréttir vikuna 12. – 16. október

Góða helgi !
Elín Hulda og Heleen.

Bókadagur á föstudag !

Á föstudag er bókadagur og má hvert og eitt barn hafa með sér eina bók. Munið að merkja bókina.

Þessa viku höfum við verið að skoða stafinn

Á á

og safna hlutum á stafaborðið. Mikill áhugi er hjá börnunum að finna dót og setja á borðið.

Við fórum í íþróttahúsið í gær og gekk það mjög vel. Frábært hve margir voru komnir með íþróttaföt.

Nú er hópastarfið á fullu byrjað og verður á mánudögum og fimmtudögum kl. 9:oo. Erfitt er fyrir börnin að koma inn í mitt hópastarf þar sem þau verða á eftir og ná ekki að fylgja hópnum. Gott er að hafa það í huga.

Frábært að sjá hve margir hugsa vel um að aukaföt séu í kassa barnanna sinna !

Þessi hópur virðist góður, duglegur og samrýmdur. Frábærir krakkar hér á ferð 🙂

Takk fyrir vikuna og eigið góða helgi 🙂

Heleen og Elín Hulda

Frá Eikinni

Á mánudag vorum við að flokka laufblöð eftir því hvernig þau sneru. Þau sem sneru t.d. upp voru lituð græn, þau sem sneru niður voru lituð rauð.

Á þriðjudag vorum við í tónlist og svo skoðuðum við nýjan staf E e og hans hljóð.

Á miðvikudag fórum við í íþróttahúsið. Mikil hreyfing og æfing var í ferðinni, fyrir utan sjálft íþróttahúsið. Börnin klæddu sig í hlý útiföt, fóru svo úr þeim og fötunum sínum og í íþróttaföt. Svo fóru þau úr íþróttafötunum og í öll fötin og útifötin aftur ! Þetta er mikil æfing fyrir þau og því þarf að gefa þeim meiri tíma nú þegar kólna fer.

Á fimmtudag klipptum við út eikarlaufblöð og rifum krepappír í haustlitum og bjuggum til litlar kúlur sem límdar voru á laufblaðið. Þarna æfum við miklar fínhreyfingar þar sem verið er að klippa og búa til litlar kúlur. Einnig þarf að vera þolinmóður til að búa til margar litlar kúlur 🙂

Skipulagsdagur á föstudegi,

Takk fyrir vikuna og góða helgi 🙂